sofn

Söfnun og listar af ýmsu og ólíku tagi

Söfnun og listar

home
menu Valmynd: mail
Veftré

Áfangar Jóns Helgasonar

Það var sumarið 2003 þegar við Helga komum að Beinahól á Kili að við fórum að velta fyrir okkur hvort við hefðum komið á alla þá staði sem ellefu erindi kvæðisins „Áfangar" fjalla um.

Fljótlega eftir að heim var komið var málið rannsakað og í ljós kom að þetta verkefni er langt komið a.m.k. nógu langt til þess að birta þessa „Áfangaskýrslu”. Vonandi tekst að ljúka því en til þess þarf þó átak t.d. að fara upp að Hágöngum, þar sem Kaldakvísl kemur úr Vonarskarði.

Klikkið á mynd fyrir hvert erindi og ferðasögu okkar.

-

1 Kjölur

-

2 Þúfubjarg

-

3 Dritvík

-

4 Helgafell

-

5 Látrabjarg

-

6 Drangar

-

7 Ólafsfjörður

-

8 Herðubreið

-

9 Kaldakvísl

-

10 Laki

-

11 Lómagnúpur

×

Áfangar Jóns Helgasonar, 1. erindi

Liðið er hátt á aðra öld;
enn mun þó reimt á Kili,
þar sem í snjónum bræðra beið
beisklegur aldurtili;
skuggar lyftast og líða um hjarn
líkt eins og mynd á þili;
hleypur svo einn með hærusekk,
hverfur í dimmu gili.

Áfangar
Við Beinahóll á Kili 2003
Áfangar

Beinahóll á Kili

Sumarið 2003 héldum við á Kjöl. Haldið var af stað frá Flúðum þar sem við höfðum haft sumarbústað Kennarasambandsins á leigu. Við ókum austan Hvítár í Kerlingafjöll og þaðan á Hveravelli.

Um 12 km löng slóð liggur frá þjóðveginum um Kjöl að Beinahól, en þar er minnisvarði um bræðurna sem úti urðu á Kili ásamt fjölda fjár og nokkurra hesta. Enn er bein að sjá í hrauninu við hólinn.

×

Áfangar Jóns Helgasonar, 2. erindi

Þverhöggvið gnapir Þúfubjarg
þrútið af lamstri veðra;
Ægir greiðir því önnur slög,
ekki er hann mildur héðra;
iðkuð var þar á efstu brún
íþróttin vorra feðra:
Kolbeinn sat hæst á klettasnös,
kvaðst á við hann úr neðra.

Áfangar
Á Þúfubjargi 1973
Áfangar

Þúfubjarg undir Snæfellsjökli

Þúfubjarg er vinsæll útsýnisstaður í Snæfellsnessþjóðgarði. Útsýni af bjarginu að Lóndröngum og Malarrifi er óviðjafnanlegt.

Fyrsta útilegan okkar var farin á Snæfellsnes, rétt eftir að við byrjuðum að vera saman. Auðvitað var stoppað á Þúfubjargi og dáðst að útsýninu.

×

Áfangar Jóns Helgasonar, 3. erindi

Nú er í Dritvík daufleg vist,
drungalegt nesið kalda;
sjást ekki lengur seglin hvít
sjóndeildarhringinn tjalda;
Tröllakirkjunnar tíðasöng
tóna þau Hlér og Alda;
Fullsterk mun þungt að færa á stall,
fáir sem honum valda.

Áfangar
Fullsterkur 1986
Áfangar

Dritvík, Tröllakirkja og Fullsterkur

Því miður höfum við ekki komið í Dritvík, en örskammt fyrir sunnan Dritvík er Djúpalónssandur og þar á milli Tröllakirkja. Á Djúpalónssandi er að finna þrjá eða fjóra steina, m.a. „Fullsterkann”, sem getið er um í kvæðinu.

Sumarið 1986 var haldið ættarmót að Brimilsvöllum til að minnast aldarafmælis föðurömmu minnar. Þá var farið í bíltúr fyrir nesið og hér má sjá frænda minn og nafna, Ólaf Rögnvaldsson, færa „Fullsterkann” á stall.

×

Áfangar Jóns Helgasonar, 4. erindi

Upp undir hvelfing Helgafells
hlýlegum geislum stafar;
frænda sem þangað fór í kvöld
fagna hans liðnir afar;
situr að teiti sveitin öll,
saman við langeld skrafar,
meðan oss hina hremmir fast
helkuldi myrkrar grafar.

Áfangar
Á Helgafelli 2004
Áfangar

Helgafell við Stykkishólm

Í júlí 2004 áttum við yndislega helgi í Bíldsey á Breiðafirði; sumar og sól. Á leiðinni heim var látið verða af því að ganga á Helgafell; ekki mikil fjallganga, en áhrifamikil, enda er þekkt þjóðsagan um að maður eigi þrjár óskir, sé ekki talað né litið til baka á leiðinni upp. Helga hrasaði reyndar um steinhellu í fyrstu brekku og ég gleymdi mér og spurði hvort ekki væri allt í lagi, en hún fálmaði höndum og stormaði áfram; henni hafði ekki orðið meint af og stóðst prófið.

×

Áfangar Jóns Helgasonar, 5. erindi

Alvotur stendur upp að knjám
öldubrjóturinn kargi
kagandi fram á kalda röst
kvikur af fuglaþvargi;
býsn eru meðan brothætt jörð
brestur ekki undan fargi
þar sem á hennar holu skurn
hlaðið var Látrabjargi.

Áfangar
Á Látrabjargi 2004
Áfangar

Látrabjarg

Í júní 1989 skruppum við í helgarferð með Ingvari og Tótu vestur í Vatnsdal á Barðaströnd. Þaðan var farið í bíltúr á Látrabjarg í fallegu veðri.

Í ágúst 2004 gengum við síðan Látrabjargið endilangt, frá Rauðasandi að Bjargtöngum, með gönguklúbbnum okkar og þá var þessi mynd tekin.

×

Áfangar Jóns Helgasonar, 6. erindi

Kögur og Horn og Heljarvík
huga minn seiða löngum;
tætist hið salta sjávarbrim
sundur á grýttum töngum;
Hljóðabunga við Hrollaugsborg
herðir á stríðum söngum,
meðan sinn ólma organleik
ofviðrið heyr á Dröngum.

Áfangar
Drangaskörð 1997
Áfangar

Kögur, Horn, Heljarvík, Hljóðabunga, Hrollaugsborg og Drangar

Sumarið 1995 hófum við reglulegar sumargönguferðir með gönguklúbbnum Rata. Árið 1997 voru gengnar Norðurstrandir frá Reykjarfirði, en ofan hans eru Hrollaugsborg og Hljóðabunga uppi í Drangajökli. Gengið var suður og gist m.a. að Dröngum, skammt norðan við hin þekktu Drangaskörð, þeim sem myndin er af.

Sumarið 2001 var förinni heitið á Hornstrandir og dvöldum við m.a. í Hornvík og gengum á Hornbjarg í afbragðsveðri. Daginn eftir var siglt fyrir Hælavík og Kögur á leið í Fljótavík.

Heljarvík og Hælavík er eitt og sama örnefnið skv. Wikipedia.

×

Áfangar Jóns Helgasonar, 7. erindi

Ærið er bratt við Ólafsfjörð,
ógurleg klettahöllin;
teygist hinn myrki múli fram,
minnist við boðaföllin;
kennd er við Hálfdán hurðin rauð,
hér mundi gegnt í fjöllin;
ein er þar kona krossi vígð
komin í bland við tröllin.

Áfangar
Ólafsfjarðarmúli 1974
Áfangar

Klettahöll við Ólafsfjörð og Hálfdánarhurð

Fyrir Ólafsfjarðarmúla ókum við nokkrum sinnum áður en „gegnt varð í fjallið”. Hér erum við á ferð árið 1974 á fyrstu hringferð okkar um landið, en það ár opnaðist hringvegurinn eftir brúargerð á Skeiðarársandi.

Hálfdánarhurð er norðan í Ólafsfjarðarmúla, þar sem Hálfdán prestur lauk upp bjarginu.

×

Áfangar Jóns Helgasonar, 8. erindi

Liggur við Kreppu lítil rúst,
leiðirnar ekki greiðar;
kyrja þar dimman kvæðasón
Kverkfjallavættir reiðar;
fríð var í draumum fjallaþjófs
farsældin norðan heiðar,
þegar hann sá eitt samfellt hjarn
sunnan til Herðubreiðar.

Áfangar
Vestan Herðubreiðar 1998
Áfangar

Kreppa, Kverkfjöll, Herðubreið

1986 var farin fyrsta stóra óbyggðaferðin, á Lada Sport. Ekin var Gæsavatnaleið í Öskju og þaðan yfir nýbyggða brú á Jökulsá yfir í Krepputungur og inn í Kverkfjöll.

1998 vorum við aftur á ferð og þá gangandi með gönguklúbbnum Rata. Genginn var svokallaður Öskjuvegur, frá Herðubreiðarlindum í Öskju og þaðan í Suðurárbotna. Þessi mynd var tekin vestan við Herðubreið.

×

Áfangar Jóns Helgasonar, 9. erindi

Séð hef ég skrautleg suðræn blóm
sólvermd í hlýjum garði;
áburð og ljós og aðra virkt
enginn til þeirra sparði;
mér var þó löngum meir í hug
melgrasskúfurinn harði,
runninn upp þar sem Kaldakvísl
kemur úr Vonarskarði.

Áfangar
Ekið yfir Köldukvísl 2000
Áfangar

Kaldakvísl, Vonarskarð

Því miður höfum við enn ekki komið inn á Vonarskarð í leit að melgrasskúfnum. Vonarskarð er fulllangt bæði frá Sprengisandsleið og Gæsavatnaleið til þess að það sé hægt að bóka þær ferðir á þetta erindi.

Þetta kallar á bíltúr til að Hágöngulóni sem er myndað með stíflum í farvegi Köldukvíslar en þaðan er ekki ýkjalangt inn í Vonarskarð.

Kaldakvísl rennur í Tungnaá austan við Búðarháls og þar hef ég ekið yfir ána. Mynd af vaði á Köldukvísl verður að duga í bili.

×

Áfangar Jóns Helgasonar, 10. erindi

Eldflóðið steypist ofan hlíð,
undaðar moldir flaka;
logandi standa í langri röð
ljósin á gígastjaka;
hnjúkarnir sjálfir hrikta við,
hornsteinar landsins braka,
þegar hin rámu regindjúp
ræskja sig upp um Laka.

Áfangar
Lakagígar
Áfangar

Laki

Sumarið 2003 var gönguklúbburinn Rati á ferð um Lakagíga og nágrenni. Við héldum til í Hrossatungum í 5 nætur og skoðuðum öll helstu náttúrundur svæðisins. Gengið var á Laka, Blæng, Kamba og hellar, hrauntraðir og gígaraðir skoðaðar.

×

Áfangar Jóns Helgasonar, 11. erindi

Vötnin byltast að brunasandi,
bólgnar þar kvikan gljúp;
landið ber sér á breiðum herðum
bjartan og svalan hjúp;
jötuninn stendur með járnstaf í hendi
jafnan við Lómagnúp,
kallar hann mig, og kallar hann þig...
kuldaleg rödd og djúp.

Áfangar
Lómagnúpur
Áfangar

Lómagnúpur

Í þetta sinn er ég í flugvél yfir Sandgígjukvísl. Þetta er haustið 1996, nokkrum dögum eftir hið mikla Skeiðarárhlaup. Brúin er horfinn og hringvegurinn endar eins og á pennastriki, sem dregið hefur verið þvert yfir sandinn. Í baksýn stendur Lómagnúpur og fylgist með.