sofn

Ólafur Sigurðsson og Helga Kjaran

Söfnun og listar af ýmsu og ólíku tagi

Víðförli

Þegar ég var nýbyrjaður að vinna hjá Hönnun árið 1972 heyrði ég af hugtakinu "víðförlistuðull". Magnús Hallgrímsson verkfræðingur ásamt öðrum vinnufélögum höfðu dundað sér við að telja hvað þeir höfðu komið á mörg gömlu amerísku herkortanna.
Ég ákvað fyrir nokkrum árum að GPS-væða þetta og skipti Íslandi upp í reiti eftir breiddar og lengdarbaugum og setti þetta upp í GoogleEarth. Reitirnir eru ekki mjörg margir sem mig vantar; helst eru það eyjar og sker, en nokkur kort get ég náð í með smágöngutúrum.
Á Google kortinu hér til hliðar eru þeir reitir sem ég hef ekki komið á sýndir rauðlitaðir. Kortið er hægt að fá í fulla stærð með því að klikka á kassan í horninu uppi til hægri. Svo er að sjálfsögðu hægt að þysja inn og út að ósk.

27. júlí 2019 hef ég komið á 302 kort af 325, þ.e. víðförlistuðull minn er 93%.
9 kort eru innan seilingar, frekar erfitt að ná í 5 kort en mjög erfitt yrði að ná í síðustu 9 kortin, nánast vonlaust, t.d. Kolbeinsey.

Í smáfréttum hér til hliðar er gerð grein fyrir reitum sem sérstaklega var haft fyrir að sækja. Ferlar sem þar er rætt um sjást allir bláir á yfirlitskortinu.
Reitir A eru við Vestmannaeyjar og Y við Kolbeinsey. Reitir 1 eru við Austurland og 23 á Vestfjörðum.

27. júlí 2019: C15

Víðförli
C15: Landeyjaströnd
Víðförli
C15: Landeyjaströnd

Gerður var út sérstakur leiðangur að heiman og austur í Landeyjar til að ná í kortið "C15" og kortin eru nú orðin 302. Ferill úr GPS-tækinu frá þjóðvegi 1 og niðureftir ásamt mynd fylgir að sjálfsögðu. Ekið var heim að bænum Sigluvík og leitað ráða hjá heimamanni um ferð niður á sandinn og varaði hann við fjörukambinum en að öðru leyti ætti það að vera vandræðalalaust. Við ókum hálfa leið en gengum síðustu 2 km í strekkingsvindi undan á leið niðureftir en bálhvasst á móti til baka. Myndin er tekin við hornpunkt reitsins en þaðan voru um 50 m niður að sjó; líklega einn minnsti reiturinn á kortinu.

1. ágúst 2017: M14

Víðförli
M14: Grímstunguheiði
Víðförli
M14: Grímstunguheiði

Fórum í Rataferð í Fljótin. Á bakaleiðinni var ekið inn í Vatnsdal til að ná í kortið "M14" og kortin eru nú orðin 301. Ferill úr GPS-tækinu og mynd fylgir að sjálfsögðu. Vatnsdalurinn kom á óvart og margt fallegt að sjá m.a. ættaróðal Björns Blöndals sýslumanns, forföður okkar og landnámsjörð Ingimundar gamla, Hof í Vatnsdal Myndin er tekin við Grímstungu við afleggjarann upp á Grímstunguheiði.

11. júlí 2017: H05

Víðförli
H05: Fláajökull
Víðförli
H05: Fláajökull

Vorum á hringferð um landið og keyrðum sérstaklega upp að Fláajökli við Hornafjörð til að ná í kortið "H05" og er þá stórum áfanga náð, þar sem kortin eru orðin 300. Ferill úr GPS-tækinu og mynd fylgir að sjálfsögðu. Þarna var gaman að koma og fallegt að sjá. Kortið var komið inn áður en kom að göngubrúnni en yfir hana gengum við og í átt að jöklinum, sem sést í bakgrunni.

6. júlí 2017: L15

Víðförli
L15: Upp úr Hrútafirði
Víðförli
L15: Upp úr Hrútafirði

Vorum á hringferð um landið og keyrðum sérstaklega upp úr Hrútafirði til að ná í kortið "L15" og fjölgaði þá kortum í 299. Ferill úr GPS-tækinu og mynd fylgir að sjálfsögðu. Þarna var lítið að sjá nema Húnvetnskar heiðar.

30. júlí 2011: S21

Víðförli
S21: Skálavík á Vestfjörðum (vestan Bolafjalls)
Víðförli
S21: Skálavík á Vestfjörðum (vestan Bolafjalls)

Í kjölfar Rataferðar í Skagafjörðinn þar sem m.a. var gengið á Mælifellshnjúk, var haldið vestur á firði. Við hittum Ólöfu, Helga og strákana á Ísafirði þar sem þau höfðu leigt hús í viku. Þaðan var farið í víðförlileik og ekið upp á Bolafjall og þaðan niður í Skálavík til að ná í kortið "S21". Ferill úr GPS-tækinu og mynd fylgir að sjálfsögðu. Þarna var gengið í fjörunni, um bæði sand og grjót en ekkert klifur, hæfilega langt til að ná í kortið.

18. júní 2003: J22

Víðförli
J22: Norðan við Beruvík á Snæfellsnesi
Víðförli
J22: Norðan við Beruvík á Snæfellsnesi

Fórum vestur á Snæfellsnes í afmælisferð. Settum upp Camperinn við gömlu réttina á Brimilsvöllum. Fórum síðan að skoða staði sem alltaf höfðu orðið útundan t.d. brunnar og byrgi við Hellissand og síðast en ekki síst var gengið niður niður í fjöru norðan við Beruvík til að ná í kortið "J22". Ferill úr GPS-tækinu og mynd fylgir að sjálfsögðu. Þarna var úfið hraun yfirferðar en fallegt enda innan núverandi þjóðgarðs.

4. júlí 2000: B10 og B13

Víðförli
B10: Rétt við hringveginn nærri Álftaveri
Víðförli
B13: Rétt við hringveginn á Skógasandi

Fórum hringveginn og hittum meðan annars Björgu og JG, Ólöfu og Hilmar fyrir norðan. Á leiðinni heim um suðurströndina voru teknir tveir smáútúrdúrar, annars vegar nærri Álftaveri og hinsvegar nærri Skógum. Þar steinlágu tvö kort "B10" og "B13" . Ferill úr GPS-tækinu fylgir með að sjálfsögðu, en engar myndir voru teknar. Þarna var ekið um slóðir á sandinum.