tilvera

Lífið og tilveran

Lífið og tilveran

home
Bílaflotinn Heimili Jólaannálar Skólar ÓS Skólar HK Vinnustaðir ÓS Vinnustaðir HK
menu
mail Veftré

Skólaganga Helgu

Hér eru allir skólar sem komu við sögu. Í sumum tilfellum er bara mynd af skólanum og örstuttur texti, annart staðar er frá meiru að segja.

Tímakennsla, barna- og gagnfræðaskólar:

Hringbraut 81

1953-4 Tímakennsla
Skólagangan hófst með tímakennslu. Ég átti heima á Ásvallagötu 4 og Hringbrautin var skammt undan. Kennarinn okkar hét Sigríður Magnúsdóttir og bjó hún á efri hæð hússins en rak tímakennslu í kjallaranum. Þarna kynntist ég Guðrúnu Guðmunsdóttur og sátum við saman þarna og síðan alla skólagönguna, í Melaskóla, Hagaskóla og 3. bekk í MR. Ég valdi máladeild eins og systur mínar höfðu gert, enda hentaði það mér sjálfsagt betur.
Þessi mynd var tekin af Hringbraut 81 í ágúst 2025.

Melaskólinn

1954-60 Barnaskóli
Haustið 1954 fór ég í Melaskóla en skólastjóri þá var Arngrímur Kristinsson. Kennari minn allan barnskólann var Dagný G. Albertsson. Hún var frábær kennari og hafði góða stjórn á bekknum sem í voru 35 nemendur þegar flest var. Raðað var í bekki eftir lestrarkunnáttu og voru því vel flestir nemendur í þessum bekk vel læsir þegar barnaskólagangan hófst. Í bekknum skapaðist góð vinátta og til marks um það er að enn þann dag í dag hittumst við gömlu skólasystkinin alltaf öðru hverju á kaffi. Hópurinn hélst nokkuð óbreyttur og urðum við 16 nemendur úr þessum bekk stúdentar saman 1967.
Þessi mynd var tekin af Melaskólanum í ágúst 2025.

Hagaskólinn

1960-63 Gagnfræðaskóli
Haustið 1960 settist ég í Hagaskólann. Maður taldi sig nú töluvert fullorðnari þegar þangað kom. Félagslífið varð fjölbreyttara og tók ég fullan þátt í því. Í Hagaskóla voru settar upp metnaðarfullar leiksýningar og var Klemens Jónsson leikari fenginn til að stýra þeim. Björn Jónsson síðar skólastjóri Hagaskóla var umsjónarkennari okkar og var hann áhugasamur um leiksýningar þessar. Í fyrsta bekk hlotnaðist mér sá heiður að leika Grasa Guddu í þætti úr Skugga Sveini sem nefndur var Á Grasafjalli. Í öðrum bekk var tekið fyrir leikritið Maður og kona og þar lék ég Þórdísi húsfreyju á Stað. Það þótti mér dálítið erfitt þar sem Þórdís var ekkert skemmtileg, bara ákveðin og myndarleg húsfreyja Gaman var að fá búningana lánaða úr Þjóðleikhúsinu og Margrét kona Klemensar sminkaði okkur svo okkur fannst þetta alvöru. Í landsprófi var svo tekið fyrir leiktitið Happið eftir Pál Árdal. Það var létt og skemmtilegt og lék ég þar Stínu vinnukonu og naut ég bín vel þar. Nemendur í Hagaskóla höfðu flust í landsprófsdeild Gagnfræðaskólans í Vonarstræti en haustið 1962 hafði verið byggt við Hagaskóla og vorum við fyrsti árgangur sem tók landspróf þar.
Þessi mynd af Hagaskólanum er tekin í ágúst 2025. Byggingin með gula veggnum og önnur þar fyrir aftan voru einu skólabyggingarnar á þessum tíma. Inngangurinn er á sínum stað. Nú er þarna heilt þorp.

Framhaldsskólar:

1963-7 Menntaskóli
Menntaskólaárin voru ljúf við vinkonurnar úr Hagaskóla. Við vorum allar saman í þriðja bekk, en í fjórða bekk varð breyting sumar fóru í máladeild og aðra í stærðfræðideild. Þarna skildu leiðir okkar Gunnu; Gunna valdi stærðfræðideild, enda dóttir Guðmundar Arnlaugssona stærðfræðikennara og síðar fyrsta rektors Menntaskólans við Hamrahlíð. Við úr gamla hópnum sem fórum í C bekk máladeildar voru auk mín, Gerða, Elísabet, Ástríður og Lára Margrét. Í bekkinn bættist góður hópur sem hafði verið saman í Laugarnesskóla og auk þeirra tvær úr Réttarholtsskóla og nokkrar utan af landi. Menntaskólaárin voru mjög skemmtileg, námið sat ekki alltaf fyrir en félagslífið var stundað af miklum krafti. Alltaf náði ég samt mínum prófum og útskrifaðist hringtrúlofuð með góða fyrstu einkunn. Bekkjarsysturnar úr C bekknum hittast mánaðarlega í saumaklúbb.
Þessi mynd er tekin við dimission 1963.

Kennaraskólinn

1969-71 Kennaraskóli
Vorið 1969 langaði mig að fara í nám. Ég vildi fara í praktískt nám sem ekki væri of langt. Ég fór þá að hugsa um Kennaraskólann þar sem þar hafði verið eins árs nám eftir stúdentspróf til kennararéttinda. Sigrún Löve og Dúa vinkonur Ólafar systur höfðu tekið þetta ár og kenndu báðar og líkaði vel. Ég ákvað að sækja um þetta nám og hringdi í Ástríði vinkonu mína sem var líka ein með barn og ákváðum við að skella okkur í KÍ. Okkur líkaði vel í skólanum og gekk námið vel en upp úr áramótum var ákveðið að lengja námið í tvö ár. Við tókum að sjálfsögðu þessi tvö ár og útskrifuðumst vorið 1971. Við kenndum báðar í meira en 40 ár ég í 44 og Ástríður heldur lengur.
Þessi mynd af Kennaraskólanum við Stakkahlíð er tekin í ágúst 2025.

Háskóli Íslands