tilvera

Lífið og tilveran

Lífið og tilveran

home
Bílaflotinn Heimili Jólaannálar Skólar ÓS Skólar HK Vinnustaðir ÓS Vinnustaðir HK
menu
mail Veftré

Vinnustaðir Óla

Hér verða upptaldir allir vinnustaðir sem við sögu koma. Í sumum tilfellum er bara mynd af vinnustaðnum og örstuttur texti, annast staðar er frá meiru að segja, sérstaklega Hönnun/Mannviti.

Sumarvinna:

1947-60 Í sveit
Hjá afa og ömmu á Brimilsvöllum

Afi minn, Ólafur Bjarnason, ásamt hestunum hans, Rauð og Skjóna, á hlaðinu á Völlum
Þessi mynd var tekin 1960 á myndavél sem ég fékk í fermingargjöf þá um vorið.

1961 Unglingavinnan
KR-völlurinn og Úlfljótsvatn.

Ég man eftir hjólatúrum vestur í bæ til að vinna á svæðinu í kringum KR-völlinn m.a. mikið í nágrenni við eina húsið sem var við Ægisíðuna norðarvert (nú Frostaskjól) Svo fór hópurinn eina viku eða svo austur á Úlfljótsvatn. Þar bjuggum við í skátaskálunum og unnum við sveitastörf.
Þessa mynd tók ég 2025 af umræddu húsi.

1961 Haustvinna við fisk í
frystihúsi Júpíters og Mars við Kirkjusand

Frystihúsið er fyrir miðri mynd á sjávarbakkanum. Þarna er aðeins byrjar að fylla fyrir Sæbrautinni framan við húsið en þegar ég var að vinna þarna var fjaran nánast við húsvegginn. Unnið var við að raða karfa í flökunarvél eða koma pökkum með fiskflökum fyrir á pönnum fyrir frystivélar og ganga síðan frá kössum til útflutnings.
Þessa mynd tók ég 1976 úr turni Hallgrímskirkju.

1962-64 Laxeldi við Elliðaár
Rafmagnsveita Reykjavíkur

Fyrsta árið var ég einn en tvö seinni sumrin unnum við Björn Már Ólafsson við að fóðra laxaseiði, m.a með nautalifur sem við hökkuðum niður á hverjum morgni. Svo þurfti að tína upp dauð seiði með sogpípu á hverjum degi og halda stöðinni allri í góðu standi.
Þessa mynd tók ég 1964 af Bjössa við hreinsunarstörf.

1962-3 Veiðvörður við haustveiði í Elliðaám
Rafmagnsveita Reykjavíkur

Mig minnir að ég hafi verið tvö haust við þessa iðju. Mætti snemma og kom veiðimönnum út í sjóbirtingsveiðina, Keyrði síðan um á skellinöðru og fylgdist með veiðimönnum fram eftir degi. Á myndinn sést veiðihúsið við Elliðaár. Næst í mynd er Neðri Móhylur; neðar en hérna megin við gömlu brúna sem enn stendur er Sjávarfoss þar sem fyrstu laxar hvers sumars eru oft veiddir. Núverandi vegur yfir Elliðaár hefur ekki verið lagður. Í forgrunni er síðan hluti laxeldisstöðvarinnar sem Rafmagnsveita Reykjavíkur rak; svokölluð Washingtonþró næst í mynd.
Þessi mynd er tekin 1963 ofan af öðrum af tveimur olíutönkum sem stóðu þarna við gamla hitaveitustokkinn. Ummerki um stöðina og tankana sjást ekki lengur.

1965-67 Línumælingar
Raforkumálaskrifstofan

Ég fór víða um land og mældi fyrir raflínum heima að bæjum og milli landshluta. Langtímum vorum við mælingar í Mývatnssveit, í Vopnafirði, í Fljótsdal, í Kelduhverfi og víðar.
Þessa mynd tók ég 1965 af Erlingi K. Steinssyni (1932-2016) og Guðmundi E. Hannessyni (1933-1975) við mælingar, líklega í Mývatnssveit.

1968 Gatnamælingar
Reykjavíkurborg

Að loknu mælingarnámsskeiði verkfræðideildarinnar sem haldið var í Hveragerði vann ég sem eftir lifði sumars sem mælingarmaður hjá Gatnamálstjóra. Unnið var við að setja út fyrir gatnaframkvæmdum og auk þessa að mæla fyrir nýjum götum sem fyrirhugaðar voru m.a. færslu Hringbrautar frá Gamla Garði að Öskjuhlíð.
Þessi mynd var tekin í ágúst 2025. Skrifstofa Gatnamálastjóra var á 4. hæð, þeirri útbyggðu.

1969-71 Gatnamælingar
Kópavogsbær

Síðast sumarið áður en haldið var til Danmerkur byrjaði ég að vinna sem mælingamaður hjá Kópavogsbæ. Þar vann ég síðan að auki bæði sumrin þar til ég lauk námi við DTH. Unnið var við að setja út lóðir og götur og mæla fyrir nýjum hverfum m.a. Smiðjuhverfinu
Þessi mynd, tekin 2025, ef af húsinu þar sem skrifstofa bæjarverkfræðings var. Í innganginum lengst til vinstri á myndinni var Kópavogsbíó. Byggð hefur verið ein hæð ofan á húsið síðan forðum. Seinni tvö árin eða síðasta árið voru skrifstofurnar inni í íbúðahverfi, í Melgerði eða næsta nágrenni.

Full vinna: