tilvera

Lífið og tilveran

Lífið og tilveran

home
Bílaflotinn Heimili Jólaannálar Skólar ÓS Skólar HK Vinnustaðir ÓS Vinnustaðir HK
menu
mail Veftré

Vinnustaðir Helgu

Hér verða upptaldir allir vinnustaðir sem við sögu koma. Í sumum tilfellum er bara mynd af vinnustaðnum og örstuttur texti, annast staðar er frá meiru að segja.

Sumarvinna:

1959 Sendill
Heildverslun Magnúsar Kjaran

Það hefur líklega verið sumarið eftir 11 ára bekk sem ég var sendill á skrifstofu afa og pabba. Ég hjólaði um bæinn með sendilstösku fór í banka og ýmis fyrirtæki, oft fór ég með mikklar peningaupphæðir í banka. Ekki var neinn hræddur um að þeim væri stolið. Leiðinlegasta skrifstofa sem ég fór á var Verðlagseftirlitið. Þar þurfti maður oft að bíða lengi og karlarnir sem unnu þar voru heldur leiðinlegir.
Þessi mynd var tekin af Hafnarstræti 5 í ágúst 2025.

1960 Innanbúðar
Kjötbúðin Borg

Þorbjörn í Borg var góður vinur pabba og fékk ég vinnu þar sumarið eftir 12 ára bekk. Fyrsta daginn vann ég frá átta um morguninn til klukkan nú um kvöldið. Ég var svo þreytt þegar ég kom heim að ég grét. Pabbi hringdi þá í Þorbjörn og var vinnutíminn eftir það frá átta til tólf. Mér leið vel þarna og voru allar konurnar sem unnu þarna mjög góðar við mig.
Þessi mynd var tekin af Laugarvegi 78 í ágúst 2025.

1960 Fiskvinna
Ísbjörninn

Seinna sama sumar og ég vann í Borg fórum við Ólöf Eldjárn vinkona mín að vinna í skreið hjá Ísbirninum. Við fórum í boddíbíl frá Hofsvallagötu út á Nes. Þarna var margt mjög sérkennilegt fólk, ein kona klæmdist svo mikið að við stóðum á öndinni. Þarna voru líka þó nokkrir krakkar og skemmtum við Ólöf okkur ágætlega.
Fiskvinnsla Ísbjarnarins var á Hrólfsskálamel þar sem við eigum heima í dag.

1961-2 Garðavinna
Kirkjugarðar Reykjavíkur

Sumrin eftir 1. og 2. bekk í Hagaskóla vann ég hjá Kirkjugörðum Reykjavíkur í Gamla kirkjugarðinum sem nú er kallaður Hólavallagarður. Þar unnum við Ólöf Eldjárn aftur saman og fannst okkur það mjög gaman. Þarna unnu margir skemmtilegir krakkar og í minningunni var alltaf gott veður.
Þessi mynd var tekin við leiði foreldra minna í Hólavallgarði þegar mamma hefði orðið 100 ára.

1965 Skrifstofustörf
Verslunarbankinn

Þetta sumar vann ég í Verslunarbankanum. Ég vann í hlaupareikningsdeild á fyrstu hæð hússins, líkaði vel og sá alla sem í bankann komu og fylgdist með lífinu í Bankastræti.
Þessi mynd var tekin af Bankastræti 5 í ágúst 2025.

1966 Leikvallarstörf
Leikvöllurinn Stýrimannaskólanum

Þetta sumar vann ég á tveimur gæsluvöllum. Ég var yfirmaður á leikvellium við gamla Stýrimannaskólann. Undirmenn mínir voru stelpur í unglingavinnunni. Þær voru frekar latar að því að ér fannst en allt gekk þetta vel. Síðar um sumarið líklega í ágústlok lokaði leikvöllurinn við skólann þar sem kennsla hófst í skólanum.
Þessi mynd var tekin af lóð Stýrimannaskólans í ágúst 2025.

1966 Leikvallarstörf
Leikvöllurinn Rósuróló

Þetta sumar vann ég á tveimur gæsluvöllum. Seint um sumarið fluttist ég þá á Rósuróló sem var í við Sörlaskjól. Þar vann ég þar til kennsla hófst í MR.
Þessi mynd var tekin frá þeim stað sunnan Sörlaskjóls sem kallaður var "Stóra róló" í ágúst 2025. "Rósu róló" var sem þetta hús stendur nú.

1967 Skrifstofustörf
Seðlabankinn

Sumarið eftir stúdentspróf vann ég í Seðlabankanum, Ingólfshvoli, í Endurkaupadeild. Þar var ágætt að vera. Ég ætlaði að vinna allan veturinn en varð ólétt og hætti eftir nokkra mánuði.
Þessi mynd var tekin af Hafnarstræti 14 í ágúst 2025.

1969-70 Skrifstofustörf
Seðlabankinn

Á meðan ég stundaði nám í KÍ starfaði ég á sumrin í Gjaldeyriseftirliti Seðlabanka Íslands í sumarvinnu.
Þessi mynd var tekin af Hafnarstræti 14 í ágúst 2025.

Full vinna:

1971-4 Kennari
Landakotsskóli

Eftir útskrift úr KÍ réði ég mig sem kennara við Landakotsskóla. Ekki var auðvelt að fá fullt starf sem kennari þá og fannst mér ég ótrúlega heppin á komast þar að í fullt starf. Árin í Landakotsskóla voru erfið en lærdómsrík. Ég kenndi 35 tíma á viku, 35 börnum í 7 ára bekk og 30 börnum í 11 ára bekk auk þess kenndi ég ensku í 12 ára bekk. Heimavinnan var rosaleg og lítið um samstarf kennara. Þuríður Guðmundsdóttir skáldkona sem kenndi með mér þar reyndist mér mjög vel og eins Krístín Vilhjálmsdóttir sem hafði verið með mér í KÍ. Samstarf við Margréti Müller var ekki alltaf sem best en Séra Georg reyndist mér vel.
Þessi mynd var tekin af Landakotsskóla í ágúst 2025.